Umsagnir
Ég hafði samband við nokkra af fyrrum nemendum mínum og óskaði eftir umsögnum.
Ekki stóð á svörum og ég þakka öllu þessu framúrskarandi unga fólki fyrir hlýleg orð.
Umsagnirnar gefa hugmynd um áherslur mínar. SM.
Frá nemendum...
28.07.2015
Vera heiti ég og stundaði ég nám við Menntaskólann að Laugarvatni á árunum 2010-2014. Á þeim árum var Sigurjón Mýrdal sá kennari sem kenndi mér og mínum bekk einna mest. Ég tók sex stærðfræði áfanga og þrjá eðlisfræði áfanga undir leiðsögn Sigurjóns. Sigurjón sýnir gríðarlega mikinn áhuga á starfi sínu og miðlar þeim áhuga til nemenda sinna. Sigurjón sinnir starfinu mjög vel og einkenndist kennsla hans af mikilli vandvirkni og skipulagningu.
Vera Sigurðardóttir
29.07.2015
Sigurjón er frábær kennari. Undir handleiðslu hans náði ég sterkum tökum á eðlisfræði og stærðfræði. Í gegnum unglingsárin þá bar ég að borði hans ótalmörg vandamál. Hann tók á móti þeim öllum með stökustu ró og yfirvegun. Ég masaði um hvernig verkefnið væri óútreiknanlegt. Hann hlustaði og horfði á rúðustrikað blaðið, afmyndað af blýi og strokleðri. Hugsaði sig um í örfá andartök, og leiddi mig svo skref fyrir skref í gegnum verkefnið. Undir lokin, þá var það ekki lengur flókið.
Ég mæli því heilshugar með honum í allri kennslu. Hann reyndist mér mjög vel í gegnum menntaskólaárin. Ég er ekki einn á þeirri skoðun. Þeir vinir mínir sem stunda raungreinanám í háskóla segjast hafa forskot á samnemendur sína, í þessum grunnfögum. Í þeirra umræðu ber nafn Sigurjóns einatt mest á góma.
Guðmundur Snæbjörnsson
27.08.2015
Sigurjón er einstakur kennari sem vert er að vera í kringum. Hann leggur sig allan fram við að hjálpa þér að skilja námsefnið af sinni bestu getu. Stærðfræði er hans ástríða. Metnaðurinn skín í gegn. Þegar ég mætti til hans í stærðfræði fyrsta árið mitt í menntaskóla hafði ég lítinn skilning á stærðfræði. Sigurjón gjörbreytti sýn minni þar, sem og í öðrum raungreinum. Það sem ég lærði af honum mun klárlega koma til með að gagnast mér í framtíðinni. Ef þú ert tilbúin/n að leggja þig fram og sýna efninu áhuga er Sigurjón kennari fyrir þig.
Lilja Rós Sigurðardóttir
29.07.2015
Sigurjón Mýrdal hefur kennt mér stærðfræði og eðlisfræði síðustu þrjá vetur. Mér hefur gengið mjög vel í þessum greinum og líkar vel við kennsluna hjá honum. Hann gerir kröfur og fer ýtarlega í efnið. Markmið hans er ekki bara að nemendur geti reiknað tilsett dæmi, heldur að þeir skilji hvað þeir eru að gera. Ég mæli hiklaust með Sigurjóni sem kennara fyrir þá sem vilja ná betri skilningi í þessum fögum og eru tilbúnir til að stunda nám sitt af alvöru og metnaði.
Kjartan Helgason
19.08.2015
Þegar ég var nemandi við Menntaskólanum að Laugarvatni naut ég leiðsagnar Sigurjóns í stærðfræði og eðlisfræði. Þar kynntist ég honum bæði sem kennara í bekk sem og maður á mann.
Sigurjón hefur yfirgripsmikla þekkingu á viðfangsefninu og mikla reynslu af kennslu. Hann skýrir dæmin vel og hefur mjög gott lag á að setja dæmin upp myndrænt svo nemendur eigi auðveldara með að sjá fyrir sér vandamálið sem leysa þarf. Þetta tel ég að hjálpi nemendum mikið við að öðlast skilning á stærðfræði. Í ofanálag er Sigurjón þægilegur í samskiptum og gott að ræða við hann um hin ýmsu málefni.
Holger Páll Sæmundsson
14.08.2015
Ég heiti Salbjörg Ragna Sævarsdóttir og er 24 ára. Ég er á fjórða ári í Háskóla Íslands að læra að verða grunnskólakennari. Ég var í Menntaskólanum að Laugarvatni þar sem Sigurjón Mýrdal kenndi mér. Hann hefur mjög gott viðmót og það er þægilegt að tala við hann. Hann er yfirvegaður, rólegur og þolinmóður, fór vel yfir það efni og þær aðferðir sem fyrir lágu. Ef maður skildi ekki eitthvað þá fór hann aftur yfir það með ýtarlegri útskýringum og/eða annari nálgun þangað til að maður áttaði sig á því. Hann gaf sér alltaf tíma til að fara vel yfir efnið, með nákvæmum og góðum útskýringum sem varð til þess að maður náði tökum á efninu og var alltaf með á nótunum hvað væri í gangi. Sigurjón er góður kennari, býr yfir mikilli þekkingu og á auðvelt með að miðla henni áfram til nemenda sinna.
03.08.2015
Þó að maður hafi oft ekki tíma fyrir námið á menntaskólaárunum var ég fljótur að finna að Sigurjón er afbragðskennari. Hann er alltaf rólegur og þó maður sé stressaður hefur Sigurjón gott lag á því að hjálpa manni að koma auga á hlutina sem skipta máli í námsefninu og skýra námsefnið fyrir manni. Hann er alltaf tilbúinn að hjálpa þegar mann vantar aðstoð. Ég er nýútskrifaður með B.Sc. í vélaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og ég er handviss um að ef ekki væri fyrir frábæran grunn frá Sigurjóni í eðlisfræði og stærðfræði hefði mér ekki gengið svona vel í háskólanámi.
Héðinn Hauksson
07.08.2015
25 ára Reykvíkingur, nýútskrifaður geislafræðingur úr HÍ.
Sigurjón kenndi mér stærðfræði og eðlisfræði þegar ég var í Menntaskólanum á Laugarvatni. Hann kenndi mér eiginlega allt sem ég kann í eðlisfræði og áhugi hans á raunvísindum smitaðist oft út til nemenda. Þægilegt viðmót er mikilvægt til þess að vera kennari og var kennslustofa Sigurjóns alltaf vinsamlegur staður. Ég mæli eindregið með Sigurjóni sem kennara og hefði viljað að hann kenndi mér áfram í háskóla.
Björk Baldursdóttir
27.07.2015
Sigurjón hefur einstakt lag á stærðfræðikennslu og telst án efa með bestu stærðfræðikennurum sem ég hef nokkurn tíma haft. Fyrir utan gríðarlega þekkingu og reynslu á sínu sviði eru kennsluhættir hans fagmannlegir, nákvæmir og skemmtilegir. Hann vekur áhuga á námsefninu og fer ýtarlega og vel í gegnum það, með góðum útskýringum og skemmtilegum vangaveltum. Í menntaskólanámi mínu hjá Sigurjóni öðlaðist ég til að mynda betri sýn á stærðfræði í heild sinni, hvað hún er og til hvers hún er. Fyrir tilstuðlan góðrar leiðsagnar Sigurjóns óx áhugi minn á stærðfræðinni, samhliða því að skilningur minn á greininni færðist í aukana og varð til þess að ég get nú auðveldlega sinnt mínu námi á sjálfstæðan og árangursríkan hátt. Ég mæli eindregið með einkakennslu Sigurjóns.
-Teitur Sævarsson
27.07.2015
Stærðfræðin er nú kannski ekki mitt sterkasta fag og þótti mér því afar erfitt að skilja Sigurjón til að byrja með. Hans kunnátta var svo mikil að ég skildi oft hvorki upp né niður, en um leið og ég lærði inná hann og hans aðferðir sá ég að hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Hann leggur mikla áherslu á að maður skilji og skynji formúlur frekar en að notast við minnis aðferðir.
Sigurjón er hörku stærðfræðikennari með mikla reynslu og kunnáttu í sínu fagi.
Hróðný Jónsdóttir
26.07.2015
Ég heiti Guðrún Linda Sveinsdóttir og ég kláraði Menntaskólann að Laugarvatni vorið 2011. Ég fékk góðan grunn þar að mínu háskólanámi en ég stunda nám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og hyggst klára masterspróf í þeim fræðum næstkomandi vor. Þar skal hafa góðan grunn í raunvísindum sem ég tel mig hafa haft frá Laugarvatni.
Sigurjón Mýrdal var einn kennaranna á Laugarvatni og kenndi hann mér flestalla stærðfræði áfangana og alla fjóra eðlisfræði áfangana. Sigurjón er góður kennari og hann bar alltaf hag okkar nemenda í brjósti sér. Hann vildi alltaf að við skildum námsefnið, þeysti ekki bara yfir kaflana eins og sumir kennarar gera, og gafst ekki upp heldur lét hann okkur alltaf skilja námsefnið áður en hann hélt í næsta efni. Það einkenndi Sigurjón, hann fór á okkar hraða og fór þá frekar hraðar yfir það sem við skildum vel og hægar í það sem við þurftum meiri hjálp með og útskírði vel og djúpt það sem þurfti til að nemendur öðluðust skilning. Ég hefði ekki minn grunn í stærðfræði og eðlisfræði ef ég hefði ekki haft góðan kennara.
Guðrún Linda Sveinsdóttir
27.07.2015
Ég er fyrrum nemandi við Menntaskólann að Laugarvatni og kenndi Sigurjón mér öll fjögur árin stærðfræði og eðlisfræði. Stærðfræðikennsla hans var krefjandi og góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám. Ég útskrifaðist af náttúrufræðibraut árið 2014.
Í dag er ég að læra Rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík og hef nú þegar lokið við eitt ár. Ég er ánægð með að hafa hlotið kennslu undir leiðsögn Sigurjóns í stærðfræði þar sem það hjálpaði mikið í háskólanum. Hann er ákveðinn og góður kennari sem vill hjálpa manni að ná sem bestum skilning á efninu. Hann hefur sjálfur mjög djúpan skilning á efninu og kennir manni mjög fræðilega um stærðfræði.
- Ástrún Svala Óskarsdóttir
30.07.2015
Ég heiti Herdís Anna Magnúsdóttir og er nemi á þriðja ári í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 2011 þar sem
Sigurjón Mýrdal var stærðfræði og eðlisfræði kennarinn minn.
Ég kom vel undirbúin í raungreinahluta inntökuprófsins í sjúkraþjálfun og þar á ég honum stóran hlut að þakka.
Rólyndi, þolinmæði og óbilandi vilji til að útskýra fræðin lýsa honum vel sem kennara. Oft þurfti að grafa ansi lengi til að finna „meinlokuna“ sem gjarnan vildi verða hjá nemandanum en það var ekki haldið áfram fyrr en maður skildi dæmið.
Ég mæli hiklaust með Sigurjóni sem kennara.
Herdís Anna Magnúsdóttir
28.07.2015
"Vingjarnlegur og persónulegur kennari sem styður við nemandann þannig að vandamálin eru kerfisbundin leyst og ýtt undir styrkleika hans svo að þegar nemandinn nær sér á strik kemst hann á flug."
Arnar Snær Ágústsson
Læknanemi og dúx Menntaskólans að Laugarvatni
31.07.2015
Sigurjón kenndi mér stærðfræði gegnum öll 4 ár í menntaskóla þ.e 7 áfanga. Einstaklega þægilegur og áhugasamur kennari sérstaklega í litlum hópi eins og ég var í. Átti auðvelt með að einfalda flókna stærðfræði og setja dæmi upp sjónrænt og myndrænt. Góður í samskiptum og hjálpsamur.
Andri Helgason sjúkraþjálfari
31.07.2015
Sigurjón kenndi mér eðlisfræði og stærðfæði í 3 ár í Menntaskólanum að Laugarvatni. Kennsla hans hefur eflaust átt þátt í því að nú er ég í verkfræðinámi í Háskóla Íslands og gengur vel. Hann hvatti mann til að velta hlutunum fyrir sér og sjá skemmtilegar, jafnt sem gagnlegar hliðar á eðlisfræði og stærðfræði. Mikil þekking hans á efninu gerði það auðvelt að fá svör við þeim pælingum sem kunnu að koma upp í hugann og áhersla hans á grunnskilning gerði mig betri í sjálfstæðri hugsun og vinnubrögðum. Með áhuga sínum hvatti hann mig til að eyða meiri tíma í stærðfræði og sjá betur hvað hún er skemmtileg :)
Þjóðbjörg Eiríksdóttir
31.07.2015
Sigurjón kenndi mér alla mína stærðfræði og eðlisfræði í menntaskóla, þ.e. Stæ. 103-703 og Eðl. 203-403, og alltaf tókst Sigurjóni að gera hvern einasta áfanga bæði krefjandi og áhugaverðan í senn. Hann var mér góður kennari og hann lagði mikla áherslu á praktík námsefnisins, þó svo að fagurfræðin væri honum líka hugleikin. Setningar líkt og „finnst ykkur þetta ekki fallegt?“ var ósjaldan varpað til okkar nemendanna. Ég dáðist líka oft að þolinmæðinni sem karlinn sýndi þegar kom að því að útskýra þegar einhver skildi ekki eitthvað, þá var alltaf stoppað og spólað til baka þangað sem nemendurnir misstu þráðinn, en það er stór kostur hjá kennara. Þegar ég fór í háskóla áttaði ég mig á því hversu mikilvægt allt sem Sigurjón barði inn í hausinn á mér virkilega var, en ég hafði feykilega góðan grunn þegar þangað var komið, og þá er stærðfræðin leikur einn. Ég hafði bæði gagn og gaman af kynnum mínum við Sigurjón Mýrdal og get hiklaust mælt með honum sem kennara.
Jón Gautason
Nemandi í Véla-og orkutæknifræði við Háskólann í Reykjavík og stúdent af Náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum að Laugarvatni.
26.07.2015
Sigurjón Mýrdal
Sigurjón kenndi mér alla stærðfræði í Menntaskólanum að Laugarvatni og átti hann þátt í því að kveikja áhuga minn á raungreinum. Sigurjón hefur brennandi áhuga á stærðfræði og þykir fátt skemmtilegra en að koma undraheimi stærðfræðinnar á framfæri á skýran og markvissan hátt . Námið hjá honum reyndist mér mjög góður grunnur þegar ég hóf að læra verkfræði og á án efa þátt í því að mér tókst að komast á forsetalista HR
Daði Geir Samúelsson
Daði er fæddur 1994. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum að Laugarvatni af náttúrufræðibraut sem semídúx árið 2014. Hann lærir nú rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík með góðum árangri.
26.07.2015
Það eru nokkur ár síðan Sigurjón kenndi mér stærðfræði og eðlisfræði. Sigurjón er kennari sem hefur mikinn áhuga á því sem hann kennir og kemur námsefninu vel frá sér án þess að flækja málið með þvi að tala í hringi. Hann er ávallt tilbúinn að taka auka skrefið við það að útskýra hluti sem reynast nemandanum erfiðir.
Birgir Guðjónsson
26.07.2015
Menn eins og Sigurjón Mýrdal eru ekki á hverju strái. Að mínu mati er hann mjög fær stærðfræðikennari sem hefur einstakt lag á að gera stærðfræði ekki bara skiljanlega heldur skemmtilega. Hans djúpi skilningur á því efni sem hann kenndi mér á sínum tíma gerði honum kleift að gera því betri skil en margur annar hefði gert. Hann er færasti stærðfræðikennari sem að ég hef haft fram til þessa.
Ég var nokkuð fær í stærðfræði þegar ég hóf framhaldsskólanám og áfangarnir hjá Sigurjóni voru mjög gott framhald. Hann gerði kröfur til mín sem að ég kann vel meta og gerði mig að agaðari nemanda og varð ekki bara færari í stærðfræði heldur varð ég bæði skipulagðari og verklagið til mikilla muna betra.
-Bjarni Sævarsson, stúdent af náttúrufræðabraut ML árið 2014
27.07.2015
Sigurjón kenndi mér stærðfræði 6 annir og eðlisfræði nokkrar annir þegar ég stundaði nám við ML.
Ég get sagt með fullri vissu að Sigurjón hefur haldgóða þekkingu á allri menntaskólastærðfræði. Hann hefur einnig gott lag á að koma hugmyndum skipulega og snyrtilega frá sér og teiknar góðar skýringamyndir.
Ögmundur Eiríksson
Doktorsnemi í stærðfræði við Universität Bielefeld.
28.07.2015
Sigurjón Mýrdal er mjög góður kennari og hann kann efnið 110% ef ekki meira. Ég er mjög glöð að hafa fengið að vera með hann sem stærðfræðikennara því ef þú lærir vel hjá honum eru þér allar götur greiðar.
Sigrún Gunnarsdóttir
28.07.2015
Ég er ný útskrifaður með B.Sc. gráðu í vélaverkfræði og er að fara hefja framhaldsnám í flugvélaverkfræði við sænskan háskóla.
Árin 2008 til 2012 stundaði ég nám við náttúrufræðibraut Menntaskólans að Laugarvatni. Sigurjón Mýrdal kenndi mér 7 áfanga í stærðfræði og 2 í eðlisfræði. Sem nemandi þekki ég Sigurjón mjög vel og get hæglega mælt með honum sem stærðfræði og eðlisfræði kennara. Áhugi og þekking hans á sviðinu er greinileg og endurspeglast í góðri kennslu. Ég fann það þegar ég hóf nám við verkfræðina að ég var mjög vel undirbúinn og sérstaklega fyrir stærðfræðina og eðlisfræðina. Þennan góða undirbúning kann ég Sigurjóni bestu þakkir fyrir.
- Óskar Ásgeirsson
28.07.2015
"Sigurjón Mýrdal kenndi mér öll mín fjögur ár í menntaskóla, bæði stærðfræði og eðlisfræði.
Ég tel mig hafa góðan grunn í þessum námsgreinum eftir kennsluna hjá honum og veit að það mun koma sér vel í áframhaldandi námi. Ég mun hefja nám í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands í haust.
Sigurjón hefur gríðarlegan áhuga á námsefninu og vandvirkari mann er erfitt að finna. Hann leggur mikið upp úr því að nemendur geri kröfu til síns sjálfs og hafi metnað til þess að gera vel.
Ég lærði margt af kennslunni hjá honum, ekki aðeins hvernig á að beita formúlum heldur almennt og gott verklag í raungreinum, skipulag og hversu miklu vandvirkni getur skipt.
Ég mæli hiklaust með Sigurjóni sem kennara í stærðfræði."
- Þórhildur Hrafnsdóttir